Nú er vetur í bæ

Það er nú alveg stórmerkilegt hve mikil áhrif veðrið hefur á skapið í manni.  Þegar veðrið er leiðinlegt langar mig helst að liggja undir sæng og horfa á góða mynd.  En ef veðrið verður alveg kolvitlaust langar mig út.  Ég á það til að klæða mig vel og berjast við veðurguðina.  Það er alveg stórgott.

Ég verð nú að segja að ekki stend ég mig vel í þessum bloggmálum.  Það er eins og það sé aldrei tími.  Ég dáist að þeim sem blogga daglega.  Mér finnst skemmtilegast að lesa blogg sem segja frá daglegu lífi fólks.  Bara svona dæmigerð fjölskyldublogg.  Engin dramatík eða læti bara lífið eins og það er.  Smile

Við mæðgur skelltum okkur til Reykjavíkur um páskana.  Fórum daglega í sund og höfðum gaman af.  Við fórum á skauta og ég verð nú að segja að maður er nú voðalega fljótur að rifja upp taktana síðan í denn. Barnið fékk tvö súkkulaði-egg og eitt pappa-egg.  Mamman fékk eitt.  En páskaeggin eru til ennþá og virðist enginn hafa lyst á að borða þau.  Þar er svo sem bara jákvætt.  Erna náði að hitta hana Guðbjörgu sína nokkuð oft. Guðbjörgu sem er eina vinkonan sem hún hefur ekki rifist við og sú besta í heiminum.  Þær eru nú alveg dásamlegar saman og það er óhætt að segja að það er ekki lognmolla í kringum þær.   Við mæðgur keyrðum svo heim á mánudegi og mátti það nú ekki seinna vera.  Skólinn byrjaði svo á þriðjudegi. 

Á fimmtudeginum voru svo tónleikar hjá nemendum.  Þau stóðu sig öll vel.  Ég  dáist að þessum börnum hve dugleg þau eru að koma fram.  Þetta er bæði hollt og gott fyrir þau.  Þau eru kannski kvíðin í upphafi en eftir að hafa komið fram upplifa þau sig sem sigurvegara.  Á föstudeginum var svo brunað inn á Akureyri.  Við vorum með Distu og co og Nonna og co.  Ég komst samt ekki heim fyrr en á þriðjudeginum.  Þannig að hér er varla búið að setjast niður síðan fyrir páska.  En hér er veðrið kolvitlaust og fer bara versnandi held ég.  En þetta verður þá bara enn ein helgin innan dyra.  Góðar bækur eru nauðsynlegar þegar tíðarfarið er svona. 

Nú eru miklar líkur á að Sigfús minn sé orðinn faðir.  Hún Gloría Jóns eignaðist 5 stykki hvolpa í gær.  Þetta verða eflaust stórundarlegir hvolpar.   En annars íhugaði ég það í morgun að losa mig við dýrin.  Í gær fyllti kötturinn allt af fjöðrum og mitt í öllum fjöðrunum var lík.  Alveg undarlegt hve mikið af fjöðrum var í húsinu miðað við hve heillegt líkið var.  Ég kallaði nú eftir hjálp og kom Siggi og fjarlægði líkið..  Þegar ég vaknaði í morgun var enginn Sigfús sem bauð góðan daginn.  Það veit ekki á gott.  Hann hafði ekki geta haldið í sér og hafði ekki fyrir því að kalla á hjálp og pissaði inni.  Ég var sem sagt á tæpum 12 tímum búin að lenda í stórþrifum útaf heimilisdýrunum.  ArgAngry  Kötturinn er því í straffi og fær ekki að fara út.  Hundurinn er hins vegar í öðruvísi straffi og er settur út.  Þetta er flókið....


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband