Nú er vetur í bæ

Það er nú alveg stórmerkilegt hve mikil áhrif veðrið hefur á skapið í manni.  Þegar veðrið er leiðinlegt langar mig helst að liggja undir sæng og horfa á góða mynd.  En ef veðrið verður alveg kolvitlaust langar mig út.  Ég á það til að klæða mig vel og berjast við veðurguðina.  Það er alveg stórgott.

Ég verð nú að segja að ekki stend ég mig vel í þessum bloggmálum.  Það er eins og það sé aldrei tími.  Ég dáist að þeim sem blogga daglega.  Mér finnst skemmtilegast að lesa blogg sem segja frá daglegu lífi fólks.  Bara svona dæmigerð fjölskyldublogg.  Engin dramatík eða læti bara lífið eins og það er.  Smile

Við mæðgur skelltum okkur til Reykjavíkur um páskana.  Fórum daglega í sund og höfðum gaman af.  Við fórum á skauta og ég verð nú að segja að maður er nú voðalega fljótur að rifja upp taktana síðan í denn. Barnið fékk tvö súkkulaði-egg og eitt pappa-egg.  Mamman fékk eitt.  En páskaeggin eru til ennþá og virðist enginn hafa lyst á að borða þau.  Þar er svo sem bara jákvætt.  Erna náði að hitta hana Guðbjörgu sína nokkuð oft. Guðbjörgu sem er eina vinkonan sem hún hefur ekki rifist við og sú besta í heiminum.  Þær eru nú alveg dásamlegar saman og það er óhætt að segja að það er ekki lognmolla í kringum þær.   Við mæðgur keyrðum svo heim á mánudegi og mátti það nú ekki seinna vera.  Skólinn byrjaði svo á þriðjudegi. 

Á fimmtudeginum voru svo tónleikar hjá nemendum.  Þau stóðu sig öll vel.  Ég  dáist að þessum börnum hve dugleg þau eru að koma fram.  Þetta er bæði hollt og gott fyrir þau.  Þau eru kannski kvíðin í upphafi en eftir að hafa komið fram upplifa þau sig sem sigurvegara.  Á föstudeginum var svo brunað inn á Akureyri.  Við vorum með Distu og co og Nonna og co.  Ég komst samt ekki heim fyrr en á þriðjudeginum.  Þannig að hér er varla búið að setjast niður síðan fyrir páska.  En hér er veðrið kolvitlaust og fer bara versnandi held ég.  En þetta verður þá bara enn ein helgin innan dyra.  Góðar bækur eru nauðsynlegar þegar tíðarfarið er svona. 

Nú eru miklar líkur á að Sigfús minn sé orðinn faðir.  Hún Gloría Jóns eignaðist 5 stykki hvolpa í gær.  Þetta verða eflaust stórundarlegir hvolpar.   En annars íhugaði ég það í morgun að losa mig við dýrin.  Í gær fyllti kötturinn allt af fjöðrum og mitt í öllum fjöðrunum var lík.  Alveg undarlegt hve mikið af fjöðrum var í húsinu miðað við hve heillegt líkið var.  Ég kallaði nú eftir hjálp og kom Siggi og fjarlægði líkið..  Þegar ég vaknaði í morgun var enginn Sigfús sem bauð góðan daginn.  Það veit ekki á gott.  Hann hafði ekki geta haldið í sér og hafði ekki fyrir því að kalla á hjálp og pissaði inni.  Ég var sem sagt á tæpum 12 tímum búin að lenda í stórþrifum útaf heimilisdýrunum.  ArgAngry  Kötturinn er því í straffi og fær ekki að fara út.  Hundurinn er hins vegar í öðruvísi straffi og er settur út.  Þetta er flókið....


Gaman...

Ég er eflaust latasti bloggar í heimiFrown En nú er þorrablót Bakkfirðinga búið.  Blótið var virkilega skemmtilegt.  Skemmtiatriðin góð og allir sáttir held ég.  Maturinn náttúrulega frábær.  Og ballið stórgott.  Þetta heppnaðist mjög vel.  Nokkuð var um leynigesti, Eyrún og Óskar komu óvænt sem og Freydísarsynir.. Eins og venjulega er börnunum hrúgað saman hér og þar.  Þannig að hægt er að segja að þau halda sitt litla þorrablót.......Ég hef nú aldrei náð eins mörgum blótum og í ár.  Ég fór á blót á Vopnafirði, Þórshöfn, Raufarhöfn og Bakkafirði....Grin

Við mæðgur fórum til Reykjavíkur um síðustu helgi.  Þetta var nokkurs konar menningarferð.  Erna fór í leikhús með ömmu sinni sá bæði Gosa og Skilaboðaskjóðuna.  En ég og pabbi skelltum okkur á Þursaflokkinn..  Það var náttúrulega bara gaman.  En ég hefði nú samt kosið að þeir væru bara einir á sviði.   Ég komst nú ekki yfir allt sem ég ætlaði að gera en geri þá bara meira um páskana.  En Fanney vinkona er að ferma svo ég fer náttúrulega suður í fermingu. 

Ég er eins og flestir vita sögusjúk...Elska góðar sögur.  Ég ætla að setja inn eina sem ég tel alveg frábæra.  Man nú ekki hvort ég var búin að koma með hana en það verður þá bara að hafa það..

Hér kemur sagan..

Sagan segir frá ungum manni sem leitar hjálpar hjá vitrum manni.  Ungi maðurinn leitar til þess vitra og segir ég leita til þín meistari af því að mér finnst svo lítið til mín koma að mig langar ekki til að gera neitt.  Mér er sagt að það séu engin not í mér ég sé klaufskur og frekar vitlaus.  Hvernig get ég bætt mig?  Hvað get ég gert til að verða metin að verðleikum?  Meistarinn sagði en hvað þetta er leiðinlegt.  En ég get ekki hjálpað þér núna fyrst verð ég að leysa mitt eigið vandamál.   En ef þú vildir hjálpa mér að leysa mitt vandamál getum við svo reynt að leysa þitt á eftir.  Með ánægju sagði ungi maðurinn stamandi en fannst enn sem hann væri ekki metinn að verðleikum og vandamálum hans skotið á frest.  Meistarinn tók svo hring af hendi sér og sagði farðu með hann á markaðinn og seldu hann.  Þú mátt alls ekki fá minna en einn gullpening fyrir hann.  Ungi maðurinn hélt af stað.  Um leið og hann kom á markaðinn fór hann að reyna að selja peninginn. Ýmsir sýndu áhuga en um leið og ungi maðurinn nefndi gullpeninginn, fóru sumir að hlægja, aðrir gengu burt.  Einhver bauð honum silfurpening.  En þrátt fyrir að hundruði manna væru á markaðnum vildi enginn kaupa hringinn á uppsettu verði.  Ungi maðurinn snéri því til baka dapur í  bragði.  Þegar hann hitti meistarann sagði hann mér þykir það leitt en það er ekki mögulegt að fá það verð sem þú baðst um.  Ég hefði kannski getað fengið tvo eða þrjá silfurpeninga en ég efast um að ég geti blekkt nokkurn í sambandi við raunvirði hringsins.  Það sem þú segir vinur er mjög mikilvægt.  Við verðum fyrst að vita hvert raunvirði hringsins er.  Farðu til gullsmiðsins og segðu honum að þig langi til að selja hringinn og spurðu hvað hann gæfi fyrir hann.  En hversu mikið sem hann býður þér skaltu ekki selja hann.  Ungi maðurinn fór og hitti gullsmiðinn.   Gullsmiðurinn viktaði, skoðaði hringinn í stækkunargleri og sagði síðan við drenginn.  Segðu honum að vilji hann selja hringinn núna strax get ég aðeins borgað 58 gullpeninga en ef hann geti beðið lengur get ég trúlega selt hann á 70 gullpeninga.  Ungi maðurinn hljóp spenntur heim til meistarans  og sagði honum hvað gerst hafði.    Meistarinn sagði þá:  Þú ert eins og þessi hringur, dýrmætur og einstakur gimsteinn.  Og sem slíkur getur þú aðeins verið metinn af sönnum sérfræðingi.  Af hverju ferðu í gegnum lífið í þeirri trú að hver sem er geti metið raunvirði þitt?

Þessi saga er stórgóð....


Hæ og hó

Ekki hefur nú mikið gerst síðan síðast. 

Við mæðgur erum á leið til Raufarhafnar 8. febrúar í helgardvöl.  Erna ætlar að leika við Stefaníu og ég ætla að skella mér á þorrablót, gaman, gaman.  Ég fer reyndar á nokkur þorrablót þetta árið.  Hér er eins og venjulega þorrablót á bóndadaginn hjá börnunum.  Nemendur leik- og grunnskólans hittast og halda þorrablót.  Svo er Hilma frænka búin að bjóða mér á þorrablótið á Þórshöfn 2. febrúar.  Ég fer svo á þorrablót á Raufarhöfn 9. febrúar og svo verður besta blótið 16. febrúar á Bakkafirði.  Nóg að gera á þorranum.  Spurning um að finna svo nokkrar hátiðir á góunni.  Ég elska þorrablót.  

 Veðrið er alltaf vitlaust hér á þessu horni.  Það er nú bara búið að vera brjálað hérna síðustu daga.  Eiginlega alveg kolvitlaust.   Spurning um að skella Pollyönnuleiknum á þetta. Núna erum við að lesa bókina Pollyönnu í skólanum.  Þessi bók er alveg hreint afbragð.  Hún er um munaðarlausa stelpu sem flyst til frænku sinnar.  Pollyanna sér það jákvæða í öllu.  Hún leikur ,,leikinn" þar sem að hún reynir alltaf að finna eitthvað jákvætt við það neikvæða.  Þetta er frábær bók jafnt fyrir börn og fullorðna.  Ekki er nú auðvelt að nálgast hana.  Hún er ekki fáanleg lengur.  En ég fékk eitt stykki lánað sem ég ætla svo að stelast til að ljósrita.  Það virðist nú vera að ég hrífist af bókum sem ekki er hægt að kaupa.  pirr, pirr...auglýsi hér með eftir bókum, Pollyönnu, Súpu fyrir sálina, og svo Baldintátubókunum.  Þetta eru bækur sem mig langar svo til að eiga.  En hef ekki fundið.  Er meira að segja búin að hringja á fornbókasölurnar.  

Ég gleymdi nú einu.  Í gær bókuðum við ferð til Tyrklands.  Sem er náttúrulega bara frábært.  Við förum saman ég og Erna ásamt Auði og Guggu.  Það sem er enn betra er að Helga og Ási verða á sama stað á sama tíma.  Tyrkland er frábært og hótelið er yndislegt.  Þetta verður eflaust enn betra en í fyrra.  LoL


Góðan dag.....

Nú er úti veður vont.  Mér finnst nú alltaf pínulítið notalegt að liggja undir sæng í brjáluðu veðri.  Það er eitthvað svo notalegt við það að hlusta á vindinn.  Ég bjó í Sörlaskjólinu í risi og þar var yndislegt að liggja í vondum veðrum.  Þegar veðrið er vont og maður liggur undir sæng í risinu á gömlu timburhúsi skapast alveg einsstök stemming.  Húsið færist til í verstu hviðunum og það brakar og brestur í öllu.  Bernskuheimili mitt var yndislegt.  Amma og afi á neðri hæðinni og ég með foreldrum mínum á efri hæðinni.  Þetta hús er svo stór partur af mér að enn í dag fer ég og kíki á það þegar ég er í Reykjavík.  Stundum keyri ég bara framhjá en oftar en ekki fer ég í gönguferð í fjörunni.  Rifja upp gamala tíma.  Þetta hús kom á sölu þegar ég var ólétt.  Ég hafði nú ekki efni á stærtókorti þá, hvað þá að kaupa heilt hús.  Þannig að ég sat með fasteignablaðið í fanginu og grenjaði eins og bjáni.  Sjálfsagt hafa hormónarnir spilað inn í .  En ég vil eignast þetta hús.  Erna mín á nú ekkert bernskuheimili sem hún á eftir að tengjast.  Við mæðgur höfum nú flutt dálítið oft.   En ég er nú meiri dramadrottning en hún.  Wink 

Enn talar fólk um þann skelfilega tíma sem ég fór í starfskynningu á Dýraspítalann í Víðidal.  Ég hafði fram að því ætlað að verða dýralæknir.  En þarna varð ég að játa mig sigraða.  Ég hringdi í alla sem ég mögulega kannaðist við til að reyna að koma út dýrum.  Ég grenjaði eins og argasta óhemja í hvert sinn sem dýr var svæft.   En ég gæti nú alveg hugsað mér að vera bóndi sem þarf ekki að vera heima frá réttum og fram yfir slátrun.  Því ef ég væri heima þá færi ekki eitt einasta dýr í sláturhúsið.   Kindurnar yrðu bara ellidauðar.  Og við ætum sojakjötLoL 

Ég ætlaði nú alltaf að eiga fullt af börnum og dýrum.  Ég á eitt barn og tvö dýr.  Þetta gengur nú ekki neitt sérlega hratt.  En ósköp er nú gaman að fylgjast með þessum dýrum mínum.  Hundurinn kom nú fyrstur.  Var búinn að vera hér í hálft ár þegar kötturinn kom.  Samt er það kötturinn sem ræður. Hundurinn er undarlegur.  Hann á kodda.  Koddinn er notaður sem risa snuð.  Hann þæfir koddann með framloppunum og sýgur hann svo þar til hann er við það að kafna.    Ekki var hann nú tekinn snemma frá móður sinni þannig að ekkert skýrir þessa undarlegu hegðun hundsins.  Þessi hundur opnar dyr, skúffur og ísskápa.  Hann náði sér í lærisneiðar í frystinn um daginn.  Var nú samt góður og gaf kettinum rækjupoka.  Það verður nú að segjast eins og er að það er dýrt að eiga hund með þennan eiginleika.

 erna jol o7 097


Nú árið er liðið

Nú er kannski ekki skrítið að maður renni yfir það sem gerst hefur á árinu.  Í gegnum hugann fljúga alls konar minningar og alls konar tilfinningar.   Þetta er búið að vera gott ár. Kannski hafa ekki átt sér stað neinir stórir atburðir.  En miðað við mörg rússibanaárin þá er það gott. 

Janúar

Janúar var rólegur og viðburðalítill.  Ekki man ég eftir neinu sérstöku sem átti sér stað.  

Febrúar

 En febrúar kom fínn og frábær með sitt árlega þorrablót.  Á blótið í ár mættu um 130 manns.  Það er ekki slæmt þega hér búa innan við 100 manns.  Þorrablótið var frábært.  Skemmtiatriðin góð og maturinn enn betri.  Hér var svo partý fram undir morgun.  

 Mars:  Ekki man ég nú eftir neinu merkilegu í mars

Apríl:  Páskar og allt sem þeim fylgir.  Við mæðgur eyddum páskunum í Reykjavík hjá ömmu og afa.  En á Reyðarfirði var svo ferming Rósu Margrétar.  Við mættum ekki þar.  En vonandi fyrirgefst okkur.  En í Reykjavíkinni fórum við á skauta og kíktum svo til Margrétar.  Þetta voru góðir páskar með fullt af páskaeggjum

Maí:Það er alltaf fjör í maí.  Skólanum lauk snemma og við kennararnir flugum til Álandseyja ásamt kennurum úr Svalbarði og kennurum frá Raufarhöfn.  Þetta var æðisleg ferð.  Skoðuðum fámenna skóla og fallegt land.  Ég ákvað nú að þarna væri ég komin heim.  Þetta var yndislegur staður.   Ég náði nú á þessari viku að fara til Finnlands, Álandseyja, Svíþjóðar og Tallinn..Geri aðrir betur.  Frábær ferð með frábæru fólki. Mér fannst ég vera komin heim.  Ekki má heldur gleyma því að ég sjálf náði þeim merka áfanga að verða 35.  Smile Hélt fína veislu og bauð góðu fólki.  Fanney vinkona og Rakel dóttir hennar (fósturdóttir mín) og hennar kærasti komu og eyddu afmælishelginni með mér. 

Siggi frændi náði þeim merka áfanga að fermast.....En þó skömm sé frá að segja þá var ég ekki viðstödd...sorry

Júní: Erna fór í sumarbúðir með Rebekku og Dóru.  Þegar sumarbúðunum lauk náði ég í þær og við fórum til Reyðarfjarðar og tókum Ísak og Óla með okkur.  Við fórum svo öll á Bakkafjörð.  Þetta var fjör.  Svona ætlaði ég nú alltaf að hafa hlutina.  Fullt hús af börnum og dýrum.  En það gengur hægt.  Þrjár stelpur saman á aldrinum 7-8 ára getur verið svolítið skelfilegt.  Þær afrekuðu þó að ég held að rífast um hvern einasta hlut sem var hér innan dyra.  En litli kútur var bara frábær.  Þegar fjögur börn, einn hundur, einn köttur og 5 kolluungar eru á einu heimili þá er fjör....LoL

 

Júlí:Ég, Óli og Erna dunduðum okkur í útilegum.  Við fórum í Atlavíkina, Akureyri og fleira. Á Akureyri fundum við hús sem var næstum ónýtt.  Auðvita heilluðumst við að því og fórum til að skoða.  Við hittum Fjólu frænku á Akureyri með börnin sín.  Það skondna var að Erna og Eva dóttir hennar voru alveg eins.   Við fórum svo á Neskaupstað og þegar lagt var af stað suður bilaði bíllinn.   Enduðum svo með ónýtan bíl á Reyðarfirði.  Robbi bjargaði okkur og lánaði bílinn sinn suður.  Við skutumst einn sólarhring á Bakkafjörð og svo til Reykjavíkur.  Þar lentum víð í alvöru rigningu.  Við hlupum út og hoppuðum í pollum eins og smákrakkar.   Þegar 27. júlí rann upp fórum við mæðgur til Tyrklands með góðu fólki.  Erna mín náði þeim merka áfanga að verða 7 ára þennan sama dag.

Ágúst  Tyrkland...Tyrkland ...Tyrkland...Við mæðgur eyddum næstum þremur vikum af ágúst í Tyrklandi.  Tyrkland er frábært land.  Markaðir , sjór, sól og sundlaugar þetta er það sem stendur uppúr.  En ekki má gleyma öllu frábæra fólkinu.  Auður herbergisfélagi var yndisleg.  Og gerði þetta að besta frí sem ég hef farið í.   Við komum svo heim beint í menningarnótt.  En auðvita þurfti einhver bjáni að stela töskunni minni á Leifsstöð..En hún kom nú á endanum.   Ég fékk svo lánaðan bílinn hans pabba og keyrði austur beint í vinnu.  Erna var eftir hjá ömmu sinni og afa í dekri.   Þau flugu svo austur og voru hjá okkur í nokkra daga.  

September Í september fengum við góðan gest.  Grétar hans Halldórs kom og gisti hjá okkur.  Við fengum að hafa hann í þrjár vikur.  Hann er einn sá besti gestur sem við höfum haft.  Érna náði nú að klemma sig á fingrinum.  Hann var ekki frýnilegur svona í byrjun en er nú að mestu kominn í lag.

Október:  Var góður mánuður og mikið gert.  Við mæðgur skelltum okkur til Reykjavíkur.  Þar fór ég á Megasartónleika.  Karlinn er þrælmagnaður.  Í skólanum var Víkingaþema sem endaði á foreldrakvöldi.   Október mánuð endaði ég á villibráðarhlaðborði á Raufarhöfn.

Nóvember

Í nóvember var hinn eini sanni Smalabiti.  það var nú aldeilis skemmtilegt.  Ingimar Darri átti líka afmæli varð 3 ára. 

Desember: kom með sínu jólastressi.  Fór til Akureyrar 8. des og keypti jólin.  Erna var hjá pabba sínum og ég  fór með Klöru og co.  Mamam og pabbi komu svo 22. des og voru hjá okkur yfir jólin.  Erna Ó eyddi svo áramótunum með pabba sínum.  Ég var enn og aftur hjá Klöru og co.  held að þau ættu að fá ummönnunnarbætur með mér....Áramótaballið hófst svo upp úr miðnætti.  Það var gott ball.  Mér tókst meira að segja að dansa.  Það gerist nú ekki oft..

 


Þannig fór það

Við mæðgur vorum ekki tvær um jólinSmile mamma og pabbi komu til okkar og voru hjá okkur í viku.  Þetta voru virkilega góð jól.  Við fengum hinn langþráða humar.   En skottan gat nú lítið borðað þar sem spennan yfir pökkunum var mikil.  Samt dáðist ég að henni þegar  pakkarnir voru að raðast undir tréð.  Hún kíkti ekki í einn einasta, hún reyndi ekki einu sinni að njósna um pakkana sem voru inn í herbergi.  Hún er nú frekar ólík móður sinni.  Ég var sú pakkasjúkasta af öllu.  Ég kíkti í pakka og pinkla eins og ég gat.  Var meira að segja orðin nokkuð góður leikari því auðvita þurfti maður að verða hissa þegar maður tók utan af pökkunum.(sem maður var löngu búinn að kanna innihald í) ..

Við fengum góðar gjafir.  Ég fékk eina bók og fullt af dóti í baðið.  Greinilegt að vinir mínir þekkja mig.  Ég fékk svo eitt stykki uppþvottavél frá mömmu og pabba.  Ég er virkilega ánægð með það.  Ég held nefnilega að það leiðinlegasta sem ég geri sé að vaska upp.   Hvernig er hægt að hafa gaman af því???  En aldrei aftur þarf ég að vaska uppGrin

Á jóladag fórum við í glæsilega veislu hjá Distu og Marinó...Matur og kökur og fínerí.  Þetta var fjölmennt boð. Allt fullt af börnum, fullorðnum og hundum.  Bara eins og best verður á kosið...  Mamma og pabbi fóru svo 28.  des heim aftur og svo kom Óli í dag og náði í stelpuna.  Þannig að yfir áramótin verðum við þrjú í kotinu.  Ég , Sigfús og Karítas (kári)...Þetta verða eflaust svipuð áramót og í fyrra.  Róleg og góð.


Jólin jólin jólin koma...

Núna 13. desember er ég búin að kaupa allar jólagjafir.  Þetta hefur nú aldrei gerst áður.  Ég þessi sleði er nú yfirleitt hlaupandi um á aðfangadag.  En nú er bara allt tilbúið.  Ég á reyndar eftir að skreyta og skrúbba.  En kort og gjafir eru tilbúnar og bíða bara eftir að komast í hendur á eigendum sínum.   Þetta er afrek.

Jólasveinninn kemur núna og það er heilmikið mál.  Afkvæmið er nú eitthvað farið að efast.  En áfram trúir hún þó.  Fékk reyndar grátkast í fyrrakvöld útaf því að ég ætlaði að láta hana sofa eina og svo kæmi bara ókunnugur karl inn um gluggann.  Í gærkveldi var það svo þannig að hún grét og grét og átti hræðilega bágt.  Það snérist um það að þegar við myndum flytja í hús á tveimur hæðum þyrfti hún að vera í kjallaranum.  Hún grét líka smá yfir því að Siggi ræfillinn þarf að vera niðri í kjallara.  Svo gat hún grátið yfir því að hún þyrfti að flytja að heiman þegar hún yrði fullorðin.  En þegar ég var búin að lofa því að flytja ekki í hús á tveimur hæðum og að hún mætti búa heima hjá mér þar til hún yrði gömul kona, sofnaði hún.   Það er erfitt að bíða eftir jólunum þegar maður er bara 7 ára.  Auglýsingarnar byrja í október og svo glymur í eyrunum á manni að jólin séu á næsta leiti. 

  En það lýtur út fyrir að við mæðgur verðum tvær á aðfangadag.  Það verður nú bara að hafa það.   Við höfum þó hundinn og köttinn.  Við ætlum að borða humar og svo ætlum við að hafa mikið af ís.  En þetta skýrist á næstu dögum.  Í næstu viku eru svo litlu jólin í skólanum og líka foreldrakaffi.  Þannig að nóg er svo sem að gera fram að jólum. 


Já fínt...

Dagurinn í dag er glænýtt ævintýr....

Veðrið gott eða þannig.  Við fórum nú samt út í gær, mæðgur.  Skelltum okkur í sleðaferð.  Ég er orðin gömul.  Ég var alveg búin eftir að draga barnið einn hring.  En við fórum svo í mat til Klöru og co.  Voðalega er nú gott að eiga svona fólk eins og þau.  Þó svo að tæknilega eigi ég ekkert í þeim.  En svona er nú gott að geta valið sér vini.  Við fórum svo í gönguferð með Sigfús og skelltum svo einni gamalli í tækið.  Myndin , Jón Oddur og Jón Bjarni er bara skemmtileg.  En Nonni kíkti svo í heimsókn.  Það er nú alveg makalaust hver mikið við getum talað.  Við höfum sama lasna húmorinn.   En án gríns þá er lítið annað hægt en að gera grín að aðstæðum.  Staðurinn er að tæmast.  Við vorum að telja í gær og síðustu 7 ár hafa horfið héðan 7 stórar fjölskyldur.  Það er mikið miðað við 100 manna stað.   En hér er best að vera.  Þetta er góður staður og hér líður mér vel.  En samt er þetta orðið erfitt.  Hér er svo óskaplega lítið af fólki.  

Minn draumur er að búa úti í sveit.  Vera með eitthvað af dýrum og svo með ferðaþjónustu.  Eiga stórt hús sem snýr út að sjó.  Helst svona bjálkahús.  Í kringum húsið eru stórar svalir. 

Dagurinn fór nú að mestu í leti.  Reyndar málaði Erna  húsgögnin í herberginu sínu.  Það varð bara úr því hin þokkalegasta útkoma.  Fékk lánaðan pensil og skellti dagblöðum á gólfið.  Ekki var nú samt laust við að gólfið væri hvítt líka. Við bökuðum svo köku og kúrðum.  Jóhanna Kristín bauð okkur í kökuveislu.  Þannig að við fengum tvær kökur þann daginn.  En eitthvað reiddist afkvæmið við mig.  Þar sem ég nennti ekki út að leika strunsaði sú stutta til plat-ömmu sinnar og klagaði.  Þar fékk hún eins og venjulega mikinn stuðning við þetta vandamál sitt.  Sem er náttúrulega bara frábært.  Hún er heppin að hafa fengið þetta fólk.  Þá erum við ekki eins einar.  Því hér eru ekki amma og afi og ekki pabbi hennar.  En við fengum Klöru og Hafliða í staðinn og erum heppnar.


Helgin

Ekki hefur nú mikið verið gert um helgina.  Veðrið var ekki skemmtilegt og ekki geðið heldur.   Erna og Guðrún fengu að gista saman.  Byrjuðu nú á því að fara í Skeggjastaði á föstudeginum.  Ég fékk svo símtal um þrjú þar sem móðursjúk dóttir mín tilkynnti að það væri draugur inn í húsinu og þær væru hræddar.  Ég sagði þeim að fara út til þess að taka á móti mömmunni sem var á leið heim eftir að hafa náð í bjúgun í reyk.  Ég fékk nú frekar hvatvíst svar.  ,, Ertu brjáluð við erum með köku í ofninum" Ég reyndi þá að róa afkvæmið og sagði að það væru ekki draugar þarna.  Hún var nú frekar hneyksluð og benti mér á að þær væru við hliðina á kirkjugarðinum og þar væri nú frekar margir dauðir draugar.   En þær fórnuðu kökunni og hlupu útWhistling

Þegar geðið er slæmt er fátt betra en að rústa húsinu og breyta.  Breytti svefnherberginu mínu og stofunni. Fékk mér svo einn kaldan og horfði á eldgamla kerlingamynd.   En ég er farin að hlusta á jólalögin á fullu.  Mér líkar það vel.  Þegar maður býr svona afskekkt og nær ekki að sjá jólageðveikina í bænum verður maður bara að búa hana til.  En án gríns þá var jólaskrautið sett upp í Húsasmiðjunni 20. okt.  Veit ekki hvenær Ikea byrjar, en er ekki sagt ,, Jólin byrja í Ikea"?En jafn mikið jólabarn og ég er þá finnst mér þetta túmöds..

Ég held að hundinum mínum leiðistFrown  Hann er svo undarlegur.  Hann á kodda, svona venjulegan kodda sem hann sefur með.  En hann liggur ekki á honum eins og venjulegur hundur heldur treður hann eins miklu af koddanum og hann getur upp í sig og treður svo nefinu á sér á kaf inn í koddann.  Hann gefur svo frá sér undarleg hljóð, svona eins og verið sé að kæfa hann.  En hann er að þessu sjálfur þannig að spurningin er, er hann að reyna að fremja sjálfsmorð???

Ég ætla nú að skrifa nokkur jólakort í dag og borða piparkökur.  Ég ætla líka að vona að börnin skreppi út.  Geðið í stúlkunum er ekki gott þegar þær komast ekki út.  Núna erum við Margrét að skipuleggja verslunarferð til útlanda.   Við ætlum að reyna að fara út næsta vor og versla fyrir brúðkaupið hennar og vonandi barnaföt í bunkum.   Niðurstaðan var sú að trúlega eru páskarnir besti tíminn..Við kíkjum svo á vini og ættingja í leiðinni.  Þetta er að stefna í 12 daga ferð..ekki slæmtGrin

Bílamálin mín eru enn í tómu tjóni.  Ég á ekki bíl og ég er að verða brjáluð.  Fæ innilokunarkennd yfir þessu öllu.  Þó svo að ég þurfi ekki að fara neitt, þá snýst þetta um tilfinninguna að geta farið.   Ég er nú aðeins farin að lækka kröfurnar.  Komin úr 2,5 og farin að skoða bíla  sem eru ódýrari.  Mig langar svo í nýjan bíl.  Ekki bíl sem er í steik.  Ég hef nú átt marga skondna bíla.  Skódinn sem var með bensíngjöfina tengda í öryggisbeltið, Lancerinn sem maður þurfti að starta með vírum þar sem svissbotninn var ónýtur, Súkkan sem þurfti í restina að vera lagt í brekku svo hægt væri að komast af stað á morgnanna.  Ég hef nú líka drepið nokkra sjálf.   Ég á kannski ekki að eiga fínan bíl.   Þessir bílar mínir eru svolítið duglegir við það líka að lenda utan vegar.

En nóg í bili ætla að stjana við börnin.. Eigið góðan dag


Hæ og hó

Dagurinn í gær var rólegur og góður.  Rogaðist með nokkra poka af þvotti til Klöru.  Þar sem þvottavélin mín tók upp á því að losa sig við hurðina.   En þegar ég kjagaði með pokana fór ég að hugsa um þvottavélalausu árin.  Þegar við bjuggum í kjallara sem samanstóð af tveimur herbergjum og sturtuaðstöðu í þvottahúsinu.  Þegar við áttum Skodann (þá var Skodi ekki flottur), þegar við borðuðum kjötfars á brauði stundum kallaðar franskar nátthúfur eða rónasteik.  Þegar við fórum í Bónus og keyptum bara það sem var á tilboði.  Ég fékk svo þvottvél gefins sem var samsett úr hinum og þessum vélum.  Hefði eflaust fengið nafnið aegsimenspilc eða eitthvað.  Svona svipað og í laginum  með Johnny Cash þar sem gaurinn bjó til bílinn úr öllum varahlutunum.  Þetta voru erfið ár en samt þau skemmtilegustu.  Ég hef nú búið á skrítnum stöðum,  Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, flugvallarskýlinu á Bakkafirði, Skúrunum (gömul verbúð), tveimur litlum húsum, það heillar mig mest.   Ég hef alltaf elskað lítil bárujárnshús og næst á eftir þeim þá langar mig í kastala.   Svona kastala með þykkum og grófum veggjum.  Kastala sem stendur við vatn.   En það er nú lítið af þeim hér.   Whistling

 

     Í dag verður nú eitthvað meira um að vera.  Við förum í afmæli hjá Ingimar Darra og í matarboð hjá Klöru.  Svo er það náttúrulega Næturvaktin í kvöld.   Eins leiðinleg og mér fannst hún fyrst finnst mér hún frábær í dag.  Ég er reyndar að verða sjónvarpsfíkill.  Flakka á milli stöðva til að ná sem felstu.  Þetta er ömurlegt en ég ætla að fara í breytingar núna.  Ég er að hugsa um að taka jólaföndrið snemma.  Föndra bara jólakortin núna í nóv og skrifa á þau.  Í fyrra skrifaði ég síðasta jólakortið á Aðfangadag.  En nú stendur þetta allt til bóta.    Ég er búin að kaupa nokkuð margar jólagjafir og er bara frekar ánægð með mig.   Ég er samt erfið með það að ég gef alltaf gjafirnar sem ég versla til jólanna fyrir jólin.  En er nú samt að reyna að hætta.  

Jólin eru yndislegur tími.  En síðustu ár hef ég verið að hlaupa og kaupa jólin á Þorlák eða á aðfangadag.  Þetta skipulagsleysi gerir það að verkum að ég næ ekki að njóta daganna fyrir jólin.  Nú skal verða breyting á. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband